Nýjast á Local Suðurnes

Þyrla sótti einstakling í sjálfheldu við gosgíginn

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð að gossvæðinu við Fagradalsfjall í dag til þess að sækja einstakling sem gengið hafði yfir hraunið að gígnum og treysti sér ekki til baka. Áður en þyrlan var kölluð út höfðu félagar í Björgunarsveitinni Þorbirni reynt að ná til viðkomandi með því að ganga yfir hraunið með hitamyndavél að vopni en ekki komist yfir.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu sveitarinnar, en þar er fólk varað við því að ganga á hrauninu þó töluvert sé síðan gosinu lauk.

Færsla sveitarinnar í heild:

Í dag, gamlársdag var sveitin kölluð út vegna einstaklings í sjálfheldu við gosstöðvarnar. Viðkomandi hafði gengið yfir nýja hraunið og að gígnum en treysti sér svo ekki til þess að ganga yfir nýja hraunið aftur.


Frá upphafi eldgosins hefur sveitin ítrekað þau skilaboð til almennings að ganga ekki á nýja hrauninu vegna þess að það er óstöðugt og hættulegt.

Í dag þegar rúmir þrír mánuðir eru liðnir frá því að kvika kom upp síðast fannst okkur tímabært að kanna hvort óhætt væri að ganga á hrauninu til að koma viðkomandi til bjargar. Lagt var af stað yfir hraunið þar sem styst er yfir á öruggan stað en jafnframt þar sem grynnst væri niður á gamlan jarðveg. Var farið af stað með mjög öfluga hitamyndavél að vopni ásamt járnkörlum.


Eftir að hafa gengið aðeins nokkra metra út á hraunið snéri hópurinn við og óskaði eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til þess að sækja viðkomandi og koma í öruggt skjól.

Hér eru nokkrar góðar ástæður fyrir því að við snerum við og við vildum gjarnan koma þessum skilaboðum til sem allra flestra.

  • Yfirborð nýja hraunsins er mjög óstöðugt og brothætt eins og myndin sýnir glögglega. Það er mikil hætta á því að stíga niður í gegnum yfirborðið og þá er hætt við því að mikill hiti stígi upp ásamt því að auðvelt er að skera sig á ökkla eða á kálfa á hvössum brúnum hraunsins.
  • Við vitum ekkert hvað er undir yfirborðinu, hvar t.d. göng og hellar hafa myndast. Á meðan það er full skjálftavirkni í gangi á svæðinu getur yfirborð hraunsins hrunið fyrirvaralaust.
  • Víða á yfirborði hraunsins er mjög mikill hiti. Á sumum stöðum sáum við, með hitamyndavélinni, hitann fara yfir 200° gráður. Það þarf því aðeins að taka eitt vitlaust skref til þess að brenna sig alvarlega.
  • Björgunarsveitir munu ekki ganga út á hraunið á meðan aðstæður eru svona. Fari fólk yfir hraunið verði fyrir óhappi þá er eingöngu hægt að koma fólki til bjargar með þyrlu.

Útkallið í dag var það 94. á þessu ári.

Við óskum öllum gleðilegra og slysalausra áramóta og þökkum fyrir stuðninginn.

Félagar í Björgunarsveitinni Þorbirni