Nýjast á Local Suðurnes

Ásmundur um lagningu sæstrengs: “Samningsstaðan væri mjög kaupanda í vil”

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í aðsendri grein sem birt var í Morgunblaðinu á laugardag að lagning sæstrengs til Bretlands yrði stórpólitísk ákvörðun og að íslendingar yrðu í slæmri samningsstöðu ef af yrði.

Hann gengur því þvert á skoðun formanns Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum en Bjarni Benediktsson er á meðal þeirra sem hafa talið lagningu sæstrengs áhugaverðan kost fyrir íslenskan orkubúskap.

Stjórnendur Landsvirkjunar ítrekað sagt að sæstrengurinn sé ekki verkefni sem kalli á nýjar virkjanir eða mikla aukningu í framleiðslu, en Ásmundur er á annari skoðun, auk þess sem hann telur samningsstöðuna slæma: “Þá er ljóst að virkja yrði ígildi tveggja Kárahnjúkavirkjana til þess að nægt framboð orku væri til staðar til að standa undir fjárfestingu og kostnaði við rekstur sæstrengs. Íslendingar yrðu mjög háðir einum stórum orkukaupenda í marga áratugi en myndu samt aðeins fullnægja broti af heildarþörfum hans, þannig að samningsstaðan væri mjög kaupanda í vil. Þá er þeirri spurningu ósvarað hvort skynsamlegt sé að færa virðisaukann af endurnýjanlegum íslenskum náttúruauðlindum í hendur þjóðar sem hefur ekki hikað við að senda herskip á hendur Íslendingum þegar deilt er um nýtingu auðlinda og sett á okkur hryðjuverkalög sem enn svíður undan.” Segir í grein Ásmundar.

Í greininni kallar Ásmundur eftir því að Alþingi marki skýra stefnu varðandi Landsvirkjun: „Heildarhagsmunir þjóðarinnar og virðisauki raforkunnar verði til þess að skapa gjaldeyrisskapandi atvinnulíf í landinu sem er grundvöllur að fjölbreyttum og vel launuðum störfum í sveitarfélögunum. Það er mikilvægt að Alþingi marki þá stefnu sem fyrst og hér er kallað eftir slíkri stefnumótun.”