Nýjast á Local Suðurnes

Samfélagsmiðlar loga – Hvetja til róttækra aðgerða vegna Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar

Suðurnesjamenn eru farnir að ókyrrast vegna frétta af niðurskurði í samgöngumálum og fjölda alvarlegra slysa á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi undanfarna mánuði. Umræðan á samfélagsmiðlunum er að miklu leyti farin að snúast um að ráðast þurfi í mun róttækari aðgerðir en fundarhöld með ráðamönnum.

Þannig hvetja fjölmargir til þess að Reykjanesbraut verði lokað á háannatíma og hafa líflegar umræður meðal annars skapast um málið á Facebook-síðu Stopp-hópsins, sem stofnaður var til að þrýsta á um úrbætur á Reykjanesbraut.

Ekki eru þó allir sammála um hvaða meðölum sé best að beita í þessum erfiðu málum og skrifaði Guðbergur Reynisson, einn forsvarsmanna Stopp-hópsins pistil á síðuna þar sem hann hvetur fólk til að halda ró sinni og halda áfram þeirri vegferð sem þegar er hafin og reyna að hvetja ráðamenn þjóðarinnar áfram með friðsamlegum hætti. Guðbergur bendir meðal annars á að öllum kröfum hópsins hafi verið mætt hingað til, það er að segja að bygging tveggja hringtorga á Reykjanesbraut sé á áætlun, að gatnamót við Hafnaveg hafi verið lagfærð auk þess sem tvöföldun Reykjanesbrautar sé komin á samgönguáætlun.