Nýjast á Local Suðurnes

Mældist á 142 km hraða með barn í bílnum – Erlendur á fleygiferð fær háa sekt

Ökumaður sem mældist á 142 km hraða í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund var með barn í bíl sínum. Auk sektar sem hann þarf að greiða var barnaverndaryfirvöldum gert viðvart um málið.

Þessi ökumaður var einn af 29 sem kærðir hafa verið fyrir hraðakstur í umdæminu á undanförnum dögum.  Hann ók þó ekki hraðast af þessum hóp því erlendur ferðamaður mældist á 163 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km, sá á von á allt að 150.000 króna sekt samkvæmt sektarreikni Samgöngustofu.

Þá voru á annan tug ökumanna handteknir vegna gruns um vímuefnaakstur og sex sektaðir fyrir að aka á negldum hjólbörðum.

Loks bar nokkuð á því að ökumenn væru að tala í síma án þess að nota handfrjálsan búnað og máttu þeir greiða sekt í samræmi við brot sín.