Nýjast á Local Suðurnes

Flugvöllur í landi Voga talinn besti kosturinn að mati Rögnunefndar

Stofnkostnaður áætlaður um 22 milljarðar

Flugfélag Íslands er á meðal þeirra sem þyrftu að flytjast um set ef Hvassahraun yrði fyrir valinu.

Starfshópur sem hafði það að markmiði að skoða kosti undir innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu, svokölluð Rögnunefnd, hefur komist þeirri niðurstöðu að Hvassahraun væri besti kosturinn undir flugvöll. Miðað við niðurstöður starfshósins yrði flugvöllurinn best staðsettur í landi Voga,  rétt við mörk sveitarfélagsins og Hafnarfjarðar.

Starfshópurinn skilaði ítarlegri skýrslu en fjórir kostir voru skoðaðir, Hólmsheiði, Bessastaðanes, Löngusker auk breyttrar útfærslu á starfseminni í Vatnsmýri.  Hólmsheiðin var talin vera sísti valkosturinn og Hvassahraun sá besti eins og áður segir.

Í skýrslunni segir að áætlaður stofnkostnaður flugvallar og bygginga sem tækju við allri starfsemi flugvallar í Vatnsmýri sé um 22 milljarðar kr. og meðalaksturstími að/frá búsetumiðju er um 19 mín. sem er 8 mín. lengra en að/frá Vatnsmýri, akstursvegalengd er um 21 km.

Ásýnd á mannvirki yrði í lágmarki

Ítarlega er farið yfir þau áhrif sem flugvöllur í Hvassahrauni myndi mögulega hafa á umhverfið, en næðu þessar tillögur fram að ganga yrði flugvöllurinn staðsettur innan fjarsvæðis vatnsverndar og segir í skýrslunni að huga þurfi að því hvaða skilyrði þarf að uppfylla varðandi framkvæmdir og rekstur á skilgreindu vatnsverndarsvæði.

Einnig segir að völlurinn yrði staðsettur nokkuð utan byggðar þannig að ásýnd á mannvirki frá íbúðarbyggð yrðu í lágmarki. Fjarlægð frá brautarenda í nálæga frístundabyggð í Hvassahrauni yrði 1,6 km.

Um yrði að ræða flugvöll á nýjum stað með nýjan hóp beinna hagsmunaaðila. Vinna þyrfti samfélagsathugun samfara frekari athugun á þessum kosti, segir í skýrslunni en nokkuð ljóst er að töluverðra áhrifa myndi gæta á Suðurnesjum af starfssemi af þeirri stærðargráðu sem um er rætt.