Auðvelda strætófarþegum að finna týnda muni
Hóperðir Sævars, sem sjá um að þjónusta strætónotendur í Reykjanesbæ, hafa tekið í gagnið Facebook-síðu sem auðveldar þeim sem teljað sig hafa tapað lausamunum í bifreiðum fyrirtækisins að finna þá muni.
Tugir lausamuna eru í geymslu á vegum fyrirtækisins, en aðallega er um að ræða fatnað og töskur af ýmsu tagi. Birtar eru myndir af lausamunum sem tapast hafi í strætó í Reykjanesbæ og er hægt að hafa samband í síma 421-4444 sakni fólk einhvers sem það telur sig hafa gleymt í strætó.
Sérstaklega er tekið fram á síðunni að um sé að ræða muni sem fundist hafi í innanbæjarstætó, telji fólk sig hafa tapað einhverju á leiðum 55 og 89 er fólki bent á að hafa samband við rekstraraðila þeirra leiða, ABK ehf. (áður SBK ehf.) í síma 420-6000.