Nýjast á Local Suðurnes

Hafþór Júlíus tryggði sér þátttökurétt í keppni um sterkasta mann heims með sigri í Grindavík

Hafþór Júlíus Björnsson, einnig þekktur sem Fjallið, tryggði sér titilinn “Sterkasti maður á Íslandi” á mótinu “The Viking Challenge” á Sjóaranum síkáta. Hafþór tryggði sér titilinn fyrst í Grindavík árið 2010 og hefur einokað hann síðan. Sigur á móti tryggði Hafþóri þátttökurétt í keppninni um sterkasta mann heims í ár. Mótið er hluti af Giants Live mótaröðinni. Verðlaunaféð lét Hafþór renna óskipt til krabbameinsveikra barna og jafnaði upphæðina svo sjálfur úr eigin vasa.

Alls var keppt í 8 greinum í ár og sigraði Hafþór í 6 þeirra. Fannar Smári Vilhjálmsson sigraði trukkadráttinn, og Ryan England í álkubbapressunni. Á mótinu að þessu sinni var keppt í 6 greinum af 8 „head 2 head”, þar sem kraftajötnarnir takast á tveir og tveir, sem er nokkur nýbreytni, en oftar en ekki keppa menn einir og við tíma eða þyngdir.

Lokaúrslitin:

1. Hafþór Júlíus Björnsson
2. Òskar Pétur Hafstein
3. Eyþór Ingólfsson Melsted
4. Fannar Smári Vilhjálmsson
5.-6. Sigfús Fossdal
5.-6. Páll Logason
7.-8. Robert Frampton (meiddur)
7.-8. Will Baggott
9. Ryan England
10. André Bachmann
11. Kristján Sindri Níelsson
12. Ari Gunnarsson (meiddur)
13. Gatis Kauzens (meiddur)

Fréttin og myndirnar sem henni fylgir eru af Facebook-síðu Grindavíkurbæjar. Ljósmyndari er Heiða Dís Bjarnadóttir