Nýjast á Local Suðurnes

Mikið fjör á 10 ára afmæli Akurskóla

Haldið var upp á 10 ára afmæli Akurskóla í Innri-Njarðvík í dag en Skólinn var vígður þann 9. nóvember 2005. Það hefur ýmislegt verið gert síðastliðnar vikur og daga og var gert í dag í tilefni 10 ára afmælisins.

Klukkan 8:00 komu allir nemendur saman í íþróttahúsinu og sungu afmælissönginn. Kórinn leiddi svo allan hópinn þar sem sunginn var nýr skólasöngur Akurskóla. Höfundur hans Guðmundur Hreinsson fékk viðurkenningu fyrir þennan skemmtilega söng. Þá fengu allir nemendur skúffukökur og mjólk.

Foreldrafélagið færði skólanum forláta bjöllu að gjöf. Þegar verið var að undirbúa gjöfina kom það í ljós að skipsbjallan er úr Voninni KE 2, sem Gunnlaugur Karlsson gerði út frá Keflavík í mörg ár. Svo skemmtilega vill til að Gunnlaugur er afi Sigurbjargar Róbertsdóttur, skólastjóra Akurskóla.

Eftir hádegi var svo Rauðhöfði vígður af Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra. Rauðhöfði er hvalur á lóð skólans en verkið var unnið allt skólaárið í fyrra af nemendum skólans og Helgu Láru Haraldsdóttur myndlistarkennara með aðstoð Sigmundar Friðrikssonar. Nemendur skólans hafa einnig unnið lágmynd í leir sem er við inngang skólans út frá þemanu tíu.

Í dag voru svo allir árgangar með atriði annað hvort á sal skólans eða í sínum rýmum. Deginum lauk svo á því að fulltrúar úr hverjum árgangi komu með rör sem fór í tímahylkið sem opnað verður eftir 40 ár þegar skólinn verður 50 ára.

akurskoli raudhofdi

Rauðhöfði var vígður

akurskoli 10 ara timahylki

Fulltrúar úr hverjum árgangi komu með rör sem fór í tímahylkið sem opnað verður eftir 40 ár

Guðmundur Hreinsson samdi skólasöng Akurskóla

Guðmundur Hreinsson samdi skólasöng Akurskóla