Nýjast á Local Suðurnes

Fulltrúar Reykjanesbæjar funduðu með forsvarmönnum United Silicon vegna mengunar

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ átti, ásamt nokkrum fulltrúm sveitarfélagsins, fund með forsvarmönnum United Silicon vegna mengunar sem lagt hefur yfir hluta Reykjanesbæjar undanfarna daga. Markmið fundarins var að fræðast um stöðuna og það sem framundan er hjá fyrirtækinu.

Kjartan Már skrifaði stuttan pistil á Facebook-síðuna Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, þar sem hann fer í gegnum það sem rætt var á fundinum.

Snemma í morgun, laugardaginn 19. nóv., hafði ég samband við Helga Þórhallsson, forstjóra United Silicon, og óskaði eftir fundi með honum í dag til þess að fræðast um stöðuna og hvað væri framundan. Tilefnið var sú lyktarmengun og viðbrögð bæjarbúa sem margir hafa orðið varir við síðustu daga og skrifað um á samfélagsmiðlum. Segir Kjartan Már.

Það helsta sem kom fram á fundinum var að USi er að hita upp þann eina ofn sem búið er að setja upp í kísilverksmiðjunni og er það gert með því að brenna spæni inni í ofninum. Ólyktin sem margir íbúar hafa fundið kemur þaðan. Við þetta hækkar hitinn í ofninum smátt og smátt en er enn ekki kominn í það hitastig ennþá sem stefnt er að. Þar af leiðir að bruninn í ofninum ekki orðinn eins hreinn og hann mun verða. Með hærri hita verður bruninn hreinni og betri og lyktarmengunin minni að þeirra sögn. Samhliða þessu er smátt og smátt verið að hleypa meira rafmagni á ofninn með það að markmiði að ná upp fullum hita og krafti. Þetta er flókið ferli sem tekur nokkra daga en þegar því lýkur, vonandi strax eftir helgi, eiga þau óþægindi sem við höfum orðið vör við að vera úr sögunni. Segir í pistli Kjartans Más.