Nýjast á Local Suðurnes

Keflvíkingar töpuðu gegn FH

Staðan batnaði ekki hjá Keflvíkingum eftir leik kvöldsins, en liðið tapaði gegn toppliði FH 1-2 á Nettó-vellinum, í leik þar sem Hafnfirðingar skoruðu öll mörkin. Liðið situr því enn eitt á botni deildarinnar, sex stigum frá fallsæti með arfaslaka markatölu.

FH-ingar voru sterkari aðilinn framan af þó þeir ógnuðu marki heimamanna ekki mikið en þeir skoruðu fyrsta mark leiksins á 32. mínútu þegar Emil Páls­son skallaði knött­inn í netið. Davíð Þór Viðarsson varð svo fyrir því óláni að smella knettinum í eigð mark undir lok hálfleiksins og staðan því 1-1 þegar liðin gengu til leikhlés.

Síðari hálfleik­ur var eins og sá fyrri og fór ró­lega af stað, FH-ingar héldu þó bolt­an­um mun betur innan liðsins en Keflvíkingar áttu þó fína spretti inn á milli og þá sérstaklega Chukwudi Chijindu sem átti nokkur skot að marki FH, hann hafði þó úr frekar litlu að moða frá samherjum sínum.

Sigurmark FH gerði síðan Atli Viðar Björnsson sem kom inná sem varamaður um miðjan síðari hálfleik, hann fékk boltann eftir fína skallasendingu og lagði knöttinn snyrtilega í markhornið.

Nýju mennirnir í liði Keflavíkur þeir Chukwudi “Chuck” Chijindu og Farid Zato virðast vera að koma til og þó Chuck hafi haft úr litlu að moða frá liðsfélögum sínum var hann einna mest ógnandi í þessum leik og lofar góðu. Martin Hummervoll sem kom inná á 30. mínútu fyrir Sigurberg Elíasson sem fór meiddur af velli sýndi aftur á móti lítið í þessum leik, eins og við var að búast enda lítið spilað á þessu tímabili.