Fundað um áframhaldandi vopnaða gæslu í FLE

Fulltrúar lögreglustjórans á Suðurnesjum, ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneytis munu í dag funda um þörfina fyrir áframhaldandi vopnaða gæslu á Keflavíkurflugvelli. Vopnaðir sérsveitarmenn hafa verið við gæslu í flugstöðinni frá því í síðustu viku í kjölfar hryðjuverkanna í Brussel í Belgíu.
„Það verður farið yfir málið og það skoðað út frá því áhættumati sem verður fyrirliggjandi,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við mbl.is.
Fram kemur í frétt mbl.is að sex vopnaðir lögreglumenn og sérsveitarmenn hafi verið við gæslu á Keflavíkurflugvelli, ásamt sérsveitarmanni með sprengjuleitarhund eftir því sem við hefur átt.