Nýjast á Local Suðurnes

Jólagjafir Suðurnesjafyrirtækja – Gjafakortin vinsælust

Fyrirtæki og stofnanir hugsa að venju hlýtt til starfsmanna í aðdraganda jóla og keppast við að skella flottum gjöfum í pakka þess fólks sem heldur rekstrinum gangandi.

Bláa lónið gefur að venju veglegar gjafir, en starfsfólkið fékk 50 þúsund í gjafakort á vegum ónefnds banka og veglega gjafaöskju með vörum lónsins.

Landsbankinn gerir ráð fyrir að starfsfólkið skelli sér í frí og gaf starfsfólki sínu 45 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair á meðan gert er ráð fyrir að starfsfólk Íslandsbanka haldi sig hér á landi en það fékk 30 þúsund króna gjafabréf í Smáralind.

Sveitarfélögin stóðu sig að vanda vel í þessum efnum en bæði Reykjanesbær og Grindavíkurbær vilja að starfsfólkið versli heima. Skiljanlega. Starfsfólk Reykjanesbæjar fékk gjafabréf að upphæð 10.000 krónur sem gildir hjá verslunum í samtökunum Betri bær auk þess sem starfsfólkið fær frítt í sund út næsta ár. Grindavíkurbær gaf gjafabréf sem gildir í verslunum í sveitarfélaginu.

Vel var gert við starfsmenn á Keflavíkurflugvelli, en Icelandair gaf 20 þúsund króna gjafabréf í verslanir 66° norður sem og húfu frá sama fyrirtæki. Isavia gaf starfsfólki sínu 15 þúsund króna bankagjafakort og fjölskylduferð í Wonders of Iceland í Perlunni.