Nýjast á Local Suðurnes

Enginn stuðningur frá ríkinu til Voga

Rekstur sveitarfélagsins Voga hefur ekki farið varhluta af þeim hremmingum sem orðið hafa í samfélaginu, en þrátt fyrir það hefur sveitarfélagið ekki fengið styrki frá ríkinu, enn sem komið er. Minni tekjum hefur því verið mætt með auknum lántökum.

Þetta kemur fram í pistli sem bæjarstjórinn, Ásgeir Eiríksson, skrifar og birtir er á vef sveitarfélagsins. Þar segir einnig að tekjufallið sé að mestu til komið vegna samdráttar í ferðaþjónustunni á landsvísu, sem hefur mikil áhrif hér í okkar landshluta. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er hæst á öllu landinu, og við þær aðstæður reynir mikið á hjá þeim sem verða fyrir því að missa lífsviðurværi sitt. Áhrifin eru einnig mikil á tekjur sveitarsjóðsins, en bæði útsvarsstofn og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa dregist saman á árinu með tilheyrandi tekjufalli. Þrátt fyrir það hefur sveitarfélagið ekki fengið neinn stuðning frá ríkisvaldinu líkt og mörg sveitarfélög sem í vanda eru stödd, a.m.k. ekki enn sem komið er.

“Við höfum því neyðst til að mæta minni tekjum með auknum lántökum. Sem betur voru skuldir sveitarsjóðs viðráðanlegar fyrir, en undanfarin ár höfum við getað fjármagnað rekstur okkar og framkvæmdir að stærstum hluta með sjálfsaflafé. Það kemur sér vel núna þegar á brattan er að sækja, sem gerir okkur kleift að ráðast í lántökur og ráða við þær a.m.k. um hríð. Mikilvægt er að rekstrarhorfur batni þó fljótt.” Segir í pistlinum.