Nýjast á Local Suðurnes

Vill að stofnaður verði afrekssjóður fyrir framúrskarandi ungt íþróttafólk

Margrét Þórarinsdóttir, fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar mun leggja fram tillögu þess efnis að stofnaður verði afrekssjóður fyrir framúrskarandi ungt íþróttafólk í bæjarfélaginu. Tillagan kemur í kjölfar tillögu Íþrótta- og tómstundaráðs sveitarfélagsins um að hækka styrki til fulltrúa sveitarfélagsins í yngri landsliðum.

Suðurnes.net greindi frá því á dögunum að kostnaður við ferðalög með landsliðum geti hlaupið á hundruðum þúsunda króna sem íþróttafólkið þarf að greiða að mestu úr eigin vasa.

„Ég fagna þessu enda er löngu orðið tímabært að við hyglum afreksfólkinu okkar, sama hvaða íþrótt það stundar. Ég geri það að tillögu minni að Reykjanesbær stofni afrekssjóð fyrir framúrskarandi ungt íþróttafólk í bæjarfélaginu okkar. Í hann væri hægt að leita þegar ungmennin okkar eru valin í landslið og óháð því hvað mörg ungmenni ná svo langt.

Ef Reykjanesbær á að rísa undir merki sem íþróttabær verður að hlúa að unga fólkinu sem leggur mikið á sig til árangurs. Margar rannsóknir hafa sýnt að íþróttir hafa mikið forvarnargildi og við eigum að vera stolt af afreksfólkinu okkar og gera því kleift að stunda íþróttir óháð fjárhag foreldranna. Slíkur sjóður gerir það kleift.

Ég mun leggja fram tillögu þessa efnis á næsta bæjarstjórnarfundi.“ Segir í bókun Margrétar á síðasta bæjarstjórnarfundi.