Nýjast á Local Suðurnes

Ásmundur Friðriksson: “Með ólíkindum hvernig einstaka fjölmiðlar hafa meðhöndlað mig”

Mynd: Gys.is

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, gerir umfjöllun fjölmiðla um greiðslur til hans vegna starfa sinna sem alþingismaður að umfjöllunarefni í stöðufærslu á Fésbókarsíðu sinni, en Ásmundur telur það vera með ólíkindum hvernig einstaka fjölmiðlar hafa meðhöndlað hann, eiginkonu hans og fjölskyldu í fréttaflutningi af störfum hans.

Ásmundur tekur þó einn fjölmiðil út úr jöfnunni, stærsta héraðsfréttamiðil landsins, Víkurféttir, en hann segir stöðufærslu sína ekki eiga við um þann fjölmiðil.

Endurgreiðslur til Ásmundar hlaupa á tugum milljóna króna, en þingmaðurinn sem hefur setið á þingi síðan 2013 hefur þó lítið beitt sér fyrir heimasvæði sitt, Suðurnesin, á þeim kjörtímabilum sem hann hefur stundað þingmennsku. Samkvæmt vef Alþingis hefur Ásmundur mest beitt sér fyrir úrbótum á samgöngum við Vestmannaeyjar, en um helmingur fyrirspurna og þingsályktunartillagna hans tengjast Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi, hugmyndum um göng til Eyja eða möguleikanum á millilandaflugi um Vestmannaeyjaflugvöll. Ásmundur hefur þó, líkt og allir þingmenn sem búa á Suðurnesjum, beitt sér fyrir flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.