Sif Cosmetics verður Bioeffect
Sif Cosmetics, sem staðsett er í Grindavík og framleiðir Bioeffect húðvörurnar vinsælu, hefur breytt um nafn og mun héðan í frá heita Bioeffect ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Þar segir Kristinn D. Grétarsson, forstjóri fyrirtækisins, að nafnabreytingin sé eðlilegt framhald á velgengni BIOEFFECT varanna á erlendum mörkuðum og það sé eðlileg þróun að fara í þessar breytingar hér á heimamarkaði. Þá sé ákveðin hagræðing falin í því að vera með sama vörumerki hér heima og erlendis.
Bioeffect ehf. er dótturfyrirtæki ORF Líftækni en húðvörur fyrirtækisins voru fyrst kynntar á erlendum markaði í Lundúnum í desember árið 2010. Að sögn fyrirtækisins hafa vörurnar farið sigurför um heiminn undanfarin fimm ár og ku BIOEFFECT vera orðið eitt þekktasta íslenska vörumerkið á almennum neytendamarkaði erlendis.