Nýjast á Local Suðurnes

Mygla í Holtaskóla – Enn kennsla í heilsuspillandi húsnæðinu

Niðurstöður úr sýnatökum leiddu í ljós myglu á nokkrum stöðum í Holtaskóla í Reykjanesbæ. Enn er verið að kenna í heilsuspillandi húsnæði, samkvæmt bókun sem lögð var fram á fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar, en samkvæmt henni hefur aðeins verið brugðist við á slæmu stöðunum.

Unnið hefur verið hratt að lausn mála frá því að niðurstöður sýna leiddu í ljós myglu á nokkrum stöðum í skólanum, segir í fundargerð. Fræðsluráð þakkar öllum starfsmönnum hjá Reykjanesbæ sem hafa komið að málinu og ítrekar það sem fram kom í máli Tryggva Þórs deildarstjóra eignaumsýslu að mjög mikilvægt er að bregðast hratt við ábendingum um hugsanlegar rakaskemmdir í skólum og leikskólum bæjarins sem geta haft áhrif á heilsu starfsfólks og nemenda.

Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara lagði fram eftirfarandi bókun:

“Mikilvægt er að Reykjanesbær tryggi heilnæmt vinnuumhverfi strax. Einnig þarf að tryggja að tilkynningar hafi borist Sjúkratryggingum um atvinnusjúkdóm. Starfsmenn geta átt rétt til bóta verði þeir fyrir tjóni í þeim tilvikum sem vinnuveitendur hafa ekki brugðist við grun um slæm loftgæði, rakaskemmdir og/eða myglu. Sumir kennarar í Holtaskóla eru ósáttir við að vera í sama rými eða við hliðina á svæðum sem verið er að vinna í. Veikindi virðast aukast við þær aðstæður. Enn er verið að kenna í heilsuspillandi húsnæði, aðeins hefur verið brugðist við á slæmu stöðunum. Óskað er eftir upplýsingum um hversu margir kennarar hafa farið í tímabundið eða ótímabundið veikindaleyfi vegna heilsuspillandi vinnuumhverfis. Óskað er eftir þessum upplýsingum á næsta fundi fræðsluráðs.”