Átta buxna flugfarþeganum meinað að fljúga með öðru flugfélagi
Ferðamaður sem handtekinn var í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vikunni eftir að honum var vísað frá flugi vegna þess að hann var íklæddur átta buxum og tíu bolum var vísað frá öðru flugi daginn eftir. Maðurinn segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við flugfélögin British Airways og easyJet. Þá segir maðurinn lögregluna hafa beitt sig óþarfa harðræði við handtökuna.
Maðurinn segir, í samtali við mbl.is, að hann hafi upphaflega fengið þær upplýsingar á innritunarborði British Ariways að honum væri leyfilegt að klæða sig í þau föt sem hann vildi hafa með sér fyrir innritun. Annað hafi hins vegar komið á daginn þegar hann ætlaði að innrita sig, þá hafi honum verið neitað um brottfararspjald og ekki fengið upplýsingar um ástæður þess aðrar en þær að hann væri dónalegur. Lögregla var kölluð til og að eigin sögn fékk hann ansi harða meðferð við handtöku, þar sem honum var meðal annars haldið í gólfinu og beittur piparúða.
Daginn eftir átti hann svo annað bókað flug með flugfélaginu easyJet. Hann segir innritun og ferð sína um flugvöllinn hafa gengið áfallalaust fyrir sig, en þegar hann hafi loks komið að hliðinu hafi komið maður sem tjáði honum að hann fengi ekki inngöngu um borð vegna hegðunar sinnar daginn áður.
Maðurinn þurfti því að bóka þriðja flugið að þessu sinni með norska flugfélaginu Norwegian þar sem allt gekk áfallalaust fyrir sig.