Skemmtiferðaskip í Grindavíkurhöfn
Í gær átti sér stað nokkuð merkilegur atburður í sögu Grindavíkurhafnar en þá lagðist skemmtiferðaskipið Ocean Nova að bryggju í fyrsta skipti. Hér er að vísu ekki um hefðbundið skemmtiferðaskip að ræða, segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar, ekki er um að ræða risastórt fljótandi lúxushótel sem flytur hundruði farþega milli sólríkra áfangastaða heldur öllu minna skip, sérútbúið til siglinga á norðurslóðum. Farþegar um borð eru 78.
Skipið heitir Ocean Nova, smíðað í Danmörku árið 1992 og var sérstaklega smíðað með siglingar innan um ísjaka á Grænlandshafi í huga. Þrátt fyrir að vera ekki hefðbundið skemmtiferðaskip er það engu að síður ríkulega búið og aðstaða þar öll eins og best verður á kosið. Um borð er fullkomin aðstaða til að fylgjast með náttúrunni, stór vetingasalur, bókasafn og sjúkraaðstaða.