Úrkomu- og vindasöm vika framundan

Heilt yfir gera spár ráð fyrir að vikan sem nú er að byrja verði úrkomusöm og stundum vindasöm einnig. Úrkoman verður ýmist í föstu eða fljótandi formi, þó verður rigning algengari sunnanlands, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Spáin næsta sólarhring:
Sunnan 5-13 m/s og rigning, hiti 6 til 12 stig. Vestlægari í dag og kólnar með slyddu eða snjókomu, fyrst vestast á landinu. Úrkomulítið og hlýtt norðaustan til fram undir kvöld.
Gengur í norðvestan 15-23 á morgun, en 23-28 síðdegis í vindstrengjum á Suðausturlandi og Austfjörðum. Snjókoma eða slydda á norðanverðu landinu og hiti um og undir frostmarki. Skúrir eða slydduél sunnan til framan af morgundegi með hita ofan frostmarks, en þurrt og kólnandi þar síðdegis.
Á þriðjudag:
Gengur í norðvestan 15-23 m/s, en 23-28 síðdegis í vindstrengjum á Suðausturlandi og Austfjörðum. Snjókoma eða slydda á norðanverðu landinu og hiti um og undir frostmarki. Skúrir eða slydduél sunnan til framan af degi með hita 1 til 6 stig, en þurrt síðdegis. Lægir vestanlands um kvöldið.
Á miðvikudag:
Austan 8-13 framan af degi og slydda, en hægari og þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti kringum frostmark. Suðlægari síðdegis, væta víða um land og hiti 2 til 7 stig.
Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15 á norðanverðu landinu með slyddu eða snjókomu og frystir. Hægari vestlæg átt sunnan til, úrkomulítið og hiti 2 til 7 stig.
Á föstudag:
Gengur í allhvassa eða hvassa austlæga átt. Rigning eða slydda sunnan til og hiti 1 til 6 stig. Snjókoma fyrir norðan með vægu frosti.
Á laugardag og sunnudag:
Norðlæg átt og lengst af snjókoma eða slydda norðan til. Austlægari sunnanlands með skúrum eða éljum.