Nýjast á Local Suðurnes

34 veiktust í búðkaupsveislu í Sandgerði – Mengað lambakjöt líklega orsökin

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Sóttvarnalæknir telur að 34 gestir hafi fengið matareitrun eftir brúðkaupsveislu sem haldin var í Sandgerði í sumar. Stór hluti gesta neyddist til að yfirgefa samkvæmið vegna veikinda í maga sem brúðhjónin vildu meina að mætti rekja beint til matarins.

Í frétt DV af málinu í sumar sögðu Sigurbjörg Dís Konráðsdóttir og eiginmaður hennar, Jón Haukur Ólafsson frá því að þau haldið 60 manns veislu í samkomuhúsi í Sandgerði. Gleðin var mikil á stóra deginum en svo byrjaði fólk að veikjast. Sagði Sigurbjörg að maturinn sem veisluþjónustan framreiddi í veislunni hafa verið bæði kaldur og ólystugur, en boðið var upp á súpu, kalkún, hamborgarhrygg, lambalæri og meðlæti.

„Enginn matur var á hita og var súpan ísköld. Kalkúnninn var skorpinn og þurr og það sama var með hamborgarhrygginn. Þá var ekkert lambalæri heldur lambabógur sem var líka skraufþurr og þá voru kartöflurnar ískaldar og áferðin eins og á forsoðnum karöflum sem fást í næstu Bónus verslun.“ Er haft eftir Sigurbjörgu í umfjöllum DV.

Það var svo Fréttatíminn sem vakti fyrsti athygli á niðurstöðunni, en þar kemur fram að Sóttvarnalæknir hafi framkvæmt svokallaða tilfellaviðmiðunarrannsókn, með það fyrir augum að finna hvaða matvæli brúðkaupsveislunnar gætu tengst veikindunum. Í ljós kom að lambakjötið væri líklegasti orsakavaldurinn.