Nýjast á Local Suðurnes

Hvetja bæjarbúa til að lýsa upp skammdegið á Ljósanótt

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð, hefur ávallt skipað mikilvægan sess í menningar- og mannlífi Reykjanesbæjar. Á Ljósanótt sameinast íbúar í miðbænum þar sem menningin er tekin inn, búðirnar þræddar og börnin fá að leika sér. Framlag bæjarbúa, félagasamtaka og fyrirtækja hefur verið ómetanlegt í gegnum tíðina og gert Ljósanótt að einni glæsilegustu bæjarhátíð landsins. Í krafti samtakamáttar bæjarbúa hefur tekist að lýsa upp skammdegið í 20 ár enda er Ljósanótt orðin að tákni bjartsýni, ljóss og birtu. 

Þótt Ljósanótt hafi verið aflýst í ár vill Reykjanesbær hvetja bæjarbúa til að taka höndum saman og skapa táknræna Ljósanótt og lýsa upp skammdegið með því að lýsa upp nærumhverfi sitt. Það má gera með því að kveikja á lampa í glugga, setja upp seríu eða kveikja kertaljós, lýsa upp hús eða tré í garðinum sínum.

Reykjanesbær ætlar einnig að minnast Ljósanætur með því að lýsa upp fimm byggingar í bænum, eina í hverju hverfi bæjarins, á laugardagskvöldið næstkomandi. Ljósin verða kveikt um kl. 20:00 og loga til miðnættis. Íbúar geta þannig tekið rúnt um bæinn og skoðað ljósadýrðina. Þá verða ljósin á Berginu kveikt að vanda þegar rökkva tekur.