Nýjast á Local Suðurnes

Upplýsinga- og kynningarstjóra Reykjanesbæjar sagt upp – Hætti störfum samdægurs

Upplýsinga- og kynningarstjóra Reykjanesbæjar, Svanhildi Eiríksdóttur, hefur verið sagt upp störfum. Samkvæmt heimildum báru starfslokin brátt að og hætti hún störfum samdægurs. Svanhildur hafði starfað hjá Reykjanesbæ í tuttugu og þrjú og hálft ár þar af sem upplýsinga- og kynningarstjóri í tæp fimm ár.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, vildi ekki tjá sig um málið þegar Suðurnes.net leitaði eftir upplýsingum, en sagði að stjórnendur á hverjum vinnustað innan Reykjanesbæjar stilli upp sínu liði eins og þeir telji þjóna hagmunum sveitarfélagins best. Kjartan segir breytingar, ráðningar og uppsagnir í kerfinu vera hluta af því.

Eftir því sem Suðurnes.net kemst næst var starf upplýsinga- og kynningarstjóra nýlega fært undir Súluna, sem er nýtt svið innan Reykjanesbæjar og heyrir undir Menningar- og atvinnuráð, samkvæmt heimildum var uppsögnin ekki rædd í ráðinu heldur ákveðin af nýráðnum framkvæmdastjóra Súlunnar, Þórdísi Ósk Helgadóttur.