Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjabær gerist Heilsueflandi samfélag

Suðurnesjabær varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 14. janúar sl. þegar Magnús Stefánsson bæjarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í hátíðarsal Gerðaskóla. Athöfnin var haldin í tengslum við útnefningu íþróttamanns Suðurnesjabæjar. Viðstaddir voru m.a. bæjarfulltrúar, fremsta íþróttafólk bæjarins, ungt tónlistarfólk sem spilaði og söng fyrir gesti og fjölmargir aðrir íbúar á öllum aldri. Í ágúst síðastliðnum var undirrituð viljayfirlýsing um HSAM á Suðurnesjum , sú fyrsta sinna tegundar.

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög einnig m.a. að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.