Nýjast á Local Suðurnes

Flaggað gegn fordómum í Grindavík

Í dag, 17. maí, er alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks. Í tilefni dagsins er regnbogafánanum víða flaggað í Grindavík í dag. Með því að flagga regnbogafánanum leggjumst allir á eitt við að fagna fjölbreytileikanum og útrýma fordómum, í sama hvaða formi þeir birtast. 

Þennan dag árið 1990 tók Alþjóðaheilbrigðisstofnunin samkynhneigð af lista sínum yfir geðsjúkdóma. Fyrir þremur árum færði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin flokkun tengda trans fólki frá geðsjúkdómum yfir í kafla um kynverund og heilsu. Á stuttum tíma hefur margt áunnist þegar litið er til lagalegrar og félagslegrar stöðu hinsegin fólks. Því miður er það þó svo að hinsegin fólk upplifir enn fordóma og mismunun. 

Grindavíkurbær samdi við Samtökin ’78 um aukna þjónustu við íbúa, starfsfólk Grindavíkurbæjar og nemendur í Grindavík árið 2020. Markmið samkomulagsins er að auka fræðslu um málefni hinsegin fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda. Grindavíkurbær var aðeins þriðja sveitarfélagið til að ganga frá sambærilegum samningi við Samtökin ’78 og það fyrsta á landsbyggðinni, segir í tilkynningu á vef Grindavíkurbæjar.