Rannsókn kynferðisbrotamáls á skemmtistað á frumstigi

Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á máli þar sem grunur leikur á að konu hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistað í Reykjanesbæ og á henni brotið kynferðislega er skammt á veg komin og enginn er grunaður um verknaðinn enn sem komið er.
Þetta segir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, en hann vildi ekkert tjá sig um rannsókn málsins að öðru leyti þegar mbl.is ræddi við hann.
Hann bætti þó við að mál þar sem fólki er byrluð ólyfjan komi ekki oft upp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum.
Lögreglan ákvað að senda út tilkynningu í gær vegna málsins til þess að fólk hefði varann á sér. Mikilvægt sé að vera vakandi og fylgjast með vinum sínum. Þá beindi lögreglan þeim tilmælum til starfsfólks skemmtistað að fylgjast einnig vel með.