Nýjast á Local Suðurnes

Helga Bryndís heldur einleikstónleika í Hljómahöll

Helga Bryndís Magnúsdóttir píanisti heldur einleikstónleika fimmtudaginn 17. mars kl.20 í Stapa, Hljómahöll.
helga bryndis

Helga lauk námi við Tónlistarskólann í Reykjavík árið 1987 sem einleikari og kennari og var Jónas Ingimundarson aðalkennari hennar þar. Framhaldsnám stundaði hún í Vínarborg og Helsinki. Eftir að námi lauk hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi bæði sem einleikari og í kammermúsik ýmiskonar og þá ekki hvað minnst með söngvurum.

Helga starfaði lengi við Tónlistarskólann á Akureyri og einnig á Dalvík og sem organisti við nokkrar kirkjur í Eyjafirði. Hún starfar nú sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ. Hún er einnig meðlimur í Caput hópnum.

Efnisskráin er að mestu frá rómantíska tímabilinu og er stærsta verkið hin mikilfenglega sónata Chopins númer 3 í h-moll. Þá verða einnig leikin verkeftir Gabriel Fauré og Franz Liszt, smástykki eftir Couperin og skemmtileg sónatína eftir spænska tónskáldið Xavier Montsalvatge.

Miðaverði á tónleikana er stillt í hóf og er 1500 krónur og 1200 krónur fyrir félagsmenn og nemendur tónlistarskólans. Þá er athygli vakin á því að gengið er inn á tónleikana í gegnum Rokksafn Íslands.