Nýjast á Local Suðurnes

Eignarhald á húsnæði USi stangast á við ákvæði í fjárfestingasamningi

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Skrifstofu-, lager- og verksmiðjuhúsnæði, auk lóðar United Silicon í Helguvík er í eigu Geysis Capital ehf., fyrirtækis sem sérhæfir sig í útleigu fasteigna, samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Geysir Capital ehf. er svo aftur í eigu United Silicon holdings B.V., fyrirtækis sem skráð er í Hollandi og er fjórði stærsti hluthafi United Silicon, með rúmlega 7% eignarhlut.

Þetta stangast á við ákvæði í fjárfestingasamningi ríkisstjórnarinnar við fyrirtækið, sem meðal annars gengur út á ívilnanir vegna starfseminnar, þar á meðal afslátt af gjöldum til Reykjanesbæjar, en fjárfestingasamningurinn er gerður við United Silicon hf. og/eða dótturfélög þess. United Silicon Holdings B.V., eigandi Geysis Capital ehf., telst ekki til dótturfélaga United Silicon hf., þar sem það er einn af stærstu hluthöfum fyrirtækisins. Ekki bárust svör frá forsvarsmönnum United Silicon um eignarhald erlenda félagsins fyrir birtingu fréttarinnar.

Þess er sérstaklega getið í 5. grein samningsins að fastafjármunir sem tengjast félaginu teljast vera byggingar, vélar og almennir rekstrarfjármunir með föstu hlutfalli. Þá er þess sérstaklega getið í samningnum, sem finna má í heild sinni neðst í fréttinni, að ekki sé heimilt að framselja eða afsala réttindum eða skyldum án samþykkis ríkisins.

Gætu fengið 50% afslátt af fasteignaskatti

United Silicon fær, samkvæmt samningnum við ríkisstjórnina, 50% afslátt af fasteignaskatti, sé ákvæði samningsins virkjað, en sú skattlagning er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaga, á eftir útsvari.

Samkvæmt Fasteignaskrá er fasteignamat bygginga félagsins í Helguvík rétt rúmar 637 milljónir króna. Reykjanesbær nýtir heimild til þess að innheimta hæsta mögulega fasteignaskatt af atvinnuhúsnæði, 1,65%, þannig að full árleg greiðsla til Reykjanesbæjar ætti að vera tæplega 11 milljónir króna. Sé ákvæði fjárfestingasamningsins hins vegar virkjað fer sú upphæð niður í rúmar 5 milljónir króna árlega. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að húsnæði United Silicon er á byggingastigi 4, sem flokkast undir fokhelt, ekki eru greidd full fasteignagjöld af fokheldu húsnæði.

Virkjuðu ekki ákvæði um lækkun gatnagerðagjalda

Þá átti félagið, samkvæmt samningnum, möguleika á að fá 30% afslátt af gatnagerðagjöldum, það ákvæði var hins vegar ekki virkjað, en Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, sagði í samtali við Suðurnes.net að samið hafi verið við United Silicon um rúmlega 300 milljóna króna lóðargjöld. Halldór staðfesti í samtali við blaðamann að greiðslur sem tengdust lóðagjöldum væru að mestu í skilum og að unnið væri að því að klára þau mál sem eftir væru.

Rétt er að taka fram að á opnum fundi fjárlaganefnadar með ýmsum hagsmunaaðilum kom fram, í máli forstjóra United Silicon, að fyrirtækið hafi hingað til ekki nýtt sér ákvæði í umræddum samningi. Þá er einnig rétt að taka fram að fasteignaskattur er innheimtur af Reykjanesbæ, en hvorki náðist í fjármálastjóra eða framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs sveitarfélagsins til að fá staðfestingu á því hvort ákvæði um afslátt af fasteignaskatti hafi verið virkjað, eða hvort full fasteignagjöld væru inneimt vegna verksmiðju United Silicon, sem er eins og áður segir á byggingastigi 4.

Hér má sjá fjárfestingasamning ríkisstjórnarinnar og United Silicon.