Bjóða út stækkun flughlaðs á Keflavíkurflugvelli
Rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, Isavia, stefnir á að stækka flughlaðið á Keflavíkurflugvelli til austurs, framkvæmdin er komin í útboðsferli á vegum Ríkiskaupa. Framkvæmdinni er skipt upp í tvo áfanga, í fyrri áfanganum eru tvö flugvélastæði og akstursbraut og í seinni áfanganum eru þrjú flugvélastæði.
Búast má við töluverðu umstangi á svæðinu á meðan á framkvæmdum stendur þar sem unnið er að stækkun flughlaðs bæði vestan- og norðanmegin við framkvæmdarsvæðið og því þarf að samnýta aðkomuveg að vinnusvæði og bráðabirgðaveg fyrir efnisflutninga með öðrum verktaka.
Stækkun flughlaðsins felur meðal annars í sér jarðvinnu, fyllingar, leggja flughlaðsmalbik og steypu. Ásamt því að koma fyrir raflögnum, regnvatnslögnum, brunnum, ofanvatnsrennum, ljósamöstrum, strengjum ásamt öðrum rafbúnaði.