Nýjast á Local Suðurnes

Nýta ekki ákvæði í fjárfestingasamningi – Greiða full gjöld til Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

United Silicon í Helguvík, hefur ekki nýtt ákvæði um 50% afslátt af fasteignagjöldum hjá Reykjanesbæ, sem fyrirtækið á möguleika á að fá samkvæmt fjárfestingasamningi sem gerður var við ríkisstjórn Íslands. Þá hefur fyrirtækið ekki nýtt sér ákvæði um 30% afslátt af lóðagjöldum til Reykjaneshafnar, sem það á rétt á samkvæmt sama samningi.

Þetta staðfestu þeir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, í samtali við Suðurnes.net. Reykjaneshöfn hefur samið við United Silicon um rúmlega 300 milljóna króna lóðargjöld. Halldór staðfesti í samtali við blaðamann að greiðslur sem tengdust lóðagjöldum væru að mestu í skilum og að unnið væri að því að klára þau mál sem eftir væru.

Suðurnes.net fjallaði á dögunum um eignarhald á verksmiðjuhúsnæði United Silicon, í þeirri umfjöllun kom fram að samkvæmt Fasteignaskrá er fasteignamat bygginga félagsins í Helguvík rétt rúmar 637 milljónir króna.