Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurflugvöllur lokast sjaldan vegna veðurs

Keflavíkurflugvöllur, tengiflugvöllur milli Evrópu og Norður-Ameríku, hefur séð mikla aukningu á flugi þar sem fleiri flugfélög fljúga allan ársins hring og þrátt fyrir snjóþunga mánuði er ekki mikið um seinkanir samanborðið flugvelli í Evrópu og Ameríku þar sem starfsemi lamast við mun minna vetrarveður. Þetta kemur fram á vefnum Allt um flug.

Þröstur Valmundsson Söring, framkvæmdarstjóri Keflavíkurflugvallar, kom fram í sérblaði um vetrarþjónustu flugvalla hjáInternational Airport Review þar sem hann segir frá þeim áskorunum sem felast í því að halda alþjóðaflugvelli opnum á Íslandi yfir vetrarmánuðina en frá október fram í apríl er hitastigið vanalega í kringum frostmark sem gerir það að verkum að bremsuskilyrði breytast hratt.

Í grein Allt um fulg kemur einnig fram að árið 2014 voru 70.930 flugtök og lendingar sem áttu sér stað á KEF árið 2014 sem er 16,2% aukning samanborið við árið 2013 en innifalið í því er fraktflug, tæknilegar viðkomur, kennsluflug, almennt flug, þjálfunarflug, nauðlendingar vegna veiks farþega auk sambærilegra neyðartilvika auk sjúkraflugs og hernaðaræfingaflugs.

Þrátt fyrir þennan fjölda af flugtökum og lendingum er sjalgæft að aðstæður komi upp þar sem ekki er hægt að lenda í ljósi þess að vetur ríkir á Íslandi um 66% af árinu.

Slíkt hefur eingöngu gerst ef um mikinn snjóbyl er að ræða, lélegt skyggni eða sterkan hliðarvind úr óhentugri vindátt og ástæðan oft í fáum tilvikum verið vegna bremsuskilyrða á flugbrautunum.

Flugbrautirnar eru stanslaust ruddar þegar snjór og ísing er og oft þarf að skipta um braut með litlum fyrirvara vegna veðurs og er viðbragðstíminn oft um 20 mínútur til að gera aðra brautina tilbúna til notkunar.

Þær aðgerðir sem eru í forgangi hjá snjóköllunum á KEF er að halda flugbrautunum auðum og hliðarbrautum sem tengja þær við flugstöðina auk flughlaðsins og mæla bremsuskilyrði en sú vinna er mjög krefjandi yfir vetrartímann þegar skiptist á frost og hlýindi um 360 sinnum að meðaltali yfir vetrarmánuðina og í hvert skipti þarf að halda snjónum frá brautunum áður en næsta snjókoma hefst.

 

Greinina í heild sinni má finna hér.