Umfangsmikil leit að fólki við Keili
Umfangsmikil leit björgunarsveita stendur yfir á Reykjanesskaga í grennd við Keili, þar sem karl og kona eru týnd. Aðstoð er að berast frá höfuðborgarsvæðinu og búið er að ræsa þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Haraldur Haraldsson svæðisstjóri björgunarsveita á Suðurnesjum staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en í frétt miðilsins kemur fram að um sé að ræða starfsfólk Veðurstofunnar, sem unnið hefur við rannsóknir á svæðinu.
Þeir síðustu sem sáu til annars þeirra voru fréttamenn mbl.is á staðnum. Mögulegt er að þriðji aðili sé einnig týndur, segir einnig í frétt mbl.is.