Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurflugvöllur í þriðja sæti í alþjóðlegri þjónustukönnun

Keflavíkurflugvöllur er í hópi bestu flugvalla Evrópu árið 2015 samkvæmt þjónustukönnun sem gerð er á vegum alþjóðasamtaka flugvalla, ACI. Könnunin er viðamikil og gerð á öllum helstu flugvöllum heims. Fimm flugvellir voru jafnir að stigum í þriðja sætinu en ásamt Keflavíkurflugvelli voru Kaupmannahafnarflugvöllur, Heathrow flugvöllur í London, flugvöllurinn í Porto og Vínarflugvöllur í þriðja sæti. Í fyrsta sæti voru þrír flugvellir jafnir, Sheremetyevo flugvöllur í Moskvu, Pulkovo flugvöllur í Pétursborg og Sochi flugvöllur.

Í könnuninni eru farþegar spurðir um sína upplifun af þjónustu flugvallarins og gefa einkunn í fjölmörgum flokkum. Könnunin nær yfir alla þætti ferðarinnar um flugvöllinn, hvort sem er innritun, öryggisleit, þjónusta í verslunum og veitingastöðum, vegabréfaeftirlit, tollskoðun og aðra þjónustu.

Keflavíkurflugvöllur hefur náð góðum árangri í þjónustukönnunum ACI undanfarin ár og þrisvar sinnum endað í fyrsta sæti, árið 2009, 2011 og 2014. Þá var flugvöllurinn valinn á heiðurslista samtakanna árið 2014 fyrir samfelldan góðan árangur og situr þar á meðal 32 flugvalla í heiminum.

„Árangur flugvallarins í þjónustukönnun ACI ber vott um fagmennsku ykkar, staðfestu og árangur í því að bjóða viðskiptavinum upp á hágæðaþjónustu. Flugvöllurinn er til sóma fyrir okkar fag og ég þakka starfsfólki ykkar fyrir þennan stórkostlega árangur,“ segir Angela Gittens, framkvæmdarstjóri ACI World, í yfirlýsingu sem hún sendi Isavia í tilefni af niðurstöðunum.