Nýjast á Local Suðurnes

Sandgerðingar með fimm Íslands- og bikarmeistaratitla í mótorhjólaakstri

Sandgerðingar gerðu það gott í mótorhjólakeppnum sumarsins, en þrír Sandgerðingar unnu Íslands- eða bikarmeistaratitla í sumar, auk þess sem Birgir Þór Kristinsson setti tvö Íslandsmet.

Halldóra Ósk Ólafsdóttir varð á dögunum bikarmeistari í götuspyrnu hjá Bílaklúbbi Akureyrar í flokki mótorhjóla yfir 800cc og mun það vera í fyrsta skipti sem kona vinnur þann titill í flokki hjóla af þessari stærðargráðu.

Birgir Þór Kristinson varð Íslandsmeistari í kvartmílu í flokki breyttra mótorhjóla og setti um leið gildandi Íslandsmet, en hann fór kvartmíluna á 8.95 sek. Birgir varð einnig Íslandsmeistari í götuspyrnu 1/8 breytra mótorhjóla og með gildandi Íslandsmet þar einnig, á tímanum 5.80 sek. Birgir kórónaði svo gott ár með því að tryggja sér bikarmeistaratitil í götuspyrnu breyttra mótorhjóla hjá Bílaklúbbi Akureyrar og var í leiðinni stjórnandi fyrsta ökutækisins til að fara undir 6 sek. á þeirri braut.

Þá varð Ingi Björn Sigurðsson Íslandsmeistari í kvartmílu 2016, í flokki mótorhjóla yfir 900cc.