Rafn og Árni hætta að þjálfa Víði
Rafn Markús Vilbergsson og Árni Þór Ármannsson hafa að eigin ósk ákveðið að hætta þjálfun meistarflokks Víðis í knattspyrnu. Þeir félagar hafa þjálfað liðið síðastliðin tvö tímabil með ágætum árangri, fyrra tímabilið endaði liðið í 4. sæti 3. deildar og í ár hafnaði liðið í 6.sæti eftir erfiða byrjun á tímabilinu.
Auglýsing: Ert þú sölumaður með brennandi áhuga á samfélagsmiðlum?
Rafn og Árni sendu frá sér eftirfarandi tilkynningu á Fésbókarsíðu Víðis:
Sælir Víðismenn
Við tilkynntum stjórn knattspyrnudeildar Víðis fyrr í dag að við ætlum ekki að leitast eftir nýjum samningi við félagið um áframhaldandi þjálfun. Við erum þakklátir Víðismönnum fyrir það tækifæri og traust sem félagið sýndi okkur þegar við vorum ráðnir til starfa haustið 2013. Við höfum átt góðan tíma hjá Víði, hlotið dýrmæta reynslu sem þjálfarar og eignast fjölmarga nýja vini.
Á fyrra ári okkar enduðum við í 4. sæti 3. deildar. Tímabilið sem var að ljúka byrjaði með brösóttu gengi og mótlæti, tvö stig í hús eftir fyrstu átta leikina. Með mikilli samkennd, ánægju, góðum liðsstyrk og frábæri mætingasókn hvort sem það var á morgun- eða kvöldæfingar snerist gengi liðsins við. Í síðustu tíu leikjunum tapaðist aðeins einn leikur og liðið endaði í 6. sæti, 10 stigum frá fallsæti. Víðismenn geta verið stoltir af þeim frábæra hópi sem félagið bjó yfir í lok sumars.
Við göngum stoltir frá borði og þökkum öllum sem við höfum starfað með á þessum tveimur árum. Við sendum okkar bestu kveðjur til allra þeirra sem koma að Víðisliðinu.
Við óskum leikmönnum, stjórnarmönnum og síðast en ekki síst stuðningsmönnum liðsins góðs gengis.