Nýjast á Local Suðurnes

Neytendasamtökin taka undir sjónarmið HS veitna

Neytendasamtökin taka að mestu undir sjónarmið HS veitna varðandi breytingar á mælingum á heitavatnsnotkun sem fyrirtækið hefur unnið að, með uppsetningu mæla í stað hemla í íbúðahúsnæði á Suðurnesjum undanfarin misseri.

Samtökin eru almennt fylgjandi því að dregið sé úr orkusóun og telja að hemlarnir gömlu sem HS veitur hafa notað í áratugi og verið er að skipta út um þessar mundir hafi valdið meiri sóun á heitu vatni og jafnvel minni verðvitund. Þetta kemur fram í svari samtakana við fyrirspurn Local Suðurnes varðandi málið.

“Við teljum eðlilegra að það sé rukkað fyrir raunverulega notkun og neytendur geti með því móti dregið úr kostnaði með breytingu á neysluvenjum sínu.” Segir í svari frá lögfræðisviði samtakanna.

“Við höfum lengi gagnrýnt þá tilhögun að rukkað sé fyrir veituþjónustu með áætlaðri notkun, enda leiðir það gjarnan til mikilla óþæginda fyrir neytendur þegar að uppgjöri kemur. Við teljum það því jákvætt ef raunin er að nú séu mælarnir búnir fjaraflestursbúnaði og því ekki þörf á að áætla notkun. Í þessu samhengi bendi ég á grein sem birtist í nýjasta Neytendablaði á bls. 19 sem fjallar um áætlun rafmagnsreiknings, en grein þess efnis birtist upphaflega í 3.tbl. Neytendablaðsins árið 2007.”  Segir einnig í svarinu.

Engin kvörtun hefur borist samtökunum vegna málsins, en samtökin benda þó á að telji neytendur að brotið hafi verið á rétti sínum þá geta þeir haft samband við Neytendasamtökin sem veita þá ráðleggingar og annast eftir atvikum milligöngu fyrir neytendur.