Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjórastöður á Suðurnesjum á lausu

Starf bæjarstjóra sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis hefur verið auglýst laust til umsóknar, en leitað er að aðila sem býr meðal annars yfir leiðtogahæfni, frumkvæði auk hæfni í mannlegum samskiptum. Framundan eru fjölmörg krefjandi verkefni við að sameina íbúa og starfsfólk um nýtt sveitarfélag, og spennandi tækifæri sem m.a. tengjast alþjóðaflugvelli í landi sveitarfélagsins.

Þá er líklegt að staða bæjarstjóra í Grindavík verði auglýst á næstunni á meðan ólíklegt verður að teljast að auglýst verði eftir bæjarstjóra í Reykjanesbæ þar sem fulltrúar allra flokka í nýjum meirihluta hafa lýst því yfir að ánægja sé með störf Kjartans Más Kjartanssonar, sem gengt hefur starfinu undanfarin ár.

Staða bæjar- eða sveitarstjóra er laus í minnst fjórtán sveitarfélögum. Stöðurnar eru víðsvegar um landið. Auglýst er eftir bæjarstjóra á Akureyri, Fjarðabyggð, Ölfus, Hornafirði og Vesturbyggð. Einnig er auglýst staða sveitarstjóra í Bláskógarbyggð, Vík í Mýrdal, Skagafirði og Strandabyggð.

Þá á eftir að ráða bæjarstjóra á Ísafirði, Blönduósi, Árborg.