Nýjast á Local Suðurnes

Vísa ásökunum um þöggun á bug – Starfsfólk bundið þagnarskyldu

Suðurnesjabær hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna máls sem kom upp við lok síðasta árs í Sandgerðisskóla þar sem sem deildarstjóri, sem um tíma leysti af sem aðstoðarskólastjóri, er sakaður um að hafa kynferðislega áreitt undirmann, 19 ára dreng sem var 18 ára þegar meint brot áttu sér stað. Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa í umræðunni verið sökuð um óeðlileg afskipti að málinu og að hafa reynt að þagga það niður.

Tilkynningin í heild sinni:

Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar fjallað  um mál  í Sandgerðisskóla sem tengist tveimur starfsmönnum sveitarfélagsins. Í sumum tilfellum hefur viðbragða sveitarfélagsins eða skólans verið leitað af hálfu fjölmiðla eða þess óskað að sveitarfélagið svaraði tilteknum spurningum um atvik málsins eða meðferð þess.

Suðurnesjabær getur almennt ekki upplýst opinberlega um atvik eða meðferð slíkra mála, eða svarað spurningum fjölmiðla þar um enda er starfsfólk sveitarfélagsins bundið þagnarskyldu samkvæmt 57. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarfélaginu er því óhægt um vik að bregðast við gagnrýni eða staðhæfingum í fjölmiðlum en telur þó rétt að koma eftirfarandi á framfæri.

Suðurnesjabær hefur það að leiðarljósi að sveitarfélagið sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem fagmennska, samvinna og virðing sé leiðarljós starfsmanna í daglegu starfi.

Hjá sveitarfélaginu er lögð áhersla á að byggja upp heilbrigt og öruggt vinnuumhverfi starfsmanna þar sem hver og einn starfsmaður nýtur sín. Hvers konar mismunun, einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum sveitarfélagsins er ekki liðin.

Þegar upp koma tilfelli þar sem grunur er um óviðeigandi háttsemi af hálfu starfsmanna sveitarfélagsins gagnvart starfsmanni er brugðist við því samkvæmt verkferlum sveitarfélagsins og ákvæðum reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Við formlega könnun slíkra mála ber sveitarfélaginu að komast að niðurstöðu um það hvort háttsemi hafi falið í sér einelti, kynferðislega eða kynbundina áreitni eða ofbeldi. Sé það niðurstaðan er í framhaldinu brugðist við til samræmis með það að markmiði að stöðva eða koma í veg fyrir slíka háttsemi.

Eðli málsins samkvæmt er upplifun aðila um háttsemi, atvik, eða málsmeðferð oft ólík. Við formlega könnun er því nauðsynlegt að upplýsa málsatvik eins og framast er kostur meðal annars með því að afla upplýsinga hjá aðilum og veita þeim kost að koma sjónarmiðum sínum að. Við málsmeðferðina ber sveitarfélaginu jafnframt á grundvellli ólögfestra málsmeðferðarreglna sveitarstjónarréttar að gæta sérstaklega að hlutlægni og jafnræði aðila.

Meðferð slíkra mála er því vandmeðfarin og reynt að gæta að því í hvítvetna að sýna aðilum nauðsynlega nærgætni og veita þeim aðstoð og stuðning sem þörf er hverju sinni þ.m.t. með aðstoð fagfólks.

Í umfjöllun fjölmiðla um framangreint mál hefur komið fram gagnrýni á málsmeðferð sveitarfélagsins ásamt því að staðhæft hefur verið að reynt hafi verið að þagga málið niður, að letja aðila til að kæra málið til lögreglu eða að hóta brottrekstri vegna færslu á samfélagsmiðlum. Þessar fullyrðingar eiga sér hins vegar enga stoð og því óhjákvæmilegt að leiðrétta þær enda hefur við meðferð málsins verið gætt að þeim lögbundnu skyldum sem á sveitarfélaginu hvíla.

Að öðru leyti mun Suðurnesjabær ekki tjá sig frekar um framangreint mál.