Nýjast á Local Suðurnes

“Lítið svigrúm til að koma til móts við viðskiptavini,” segir forstjóri HS Veitna

Mikillar óánægju hefur gætt með breytingar sem HS Veitur hf. hafa verið að vinna að, en fyrirtækið hefur undanfarin misseri unnið að uppsetningu á nýjum mælum, til mælingar á heitavatnsnotknun í íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum. Mælarnir koma í stað hemla sem veitan hefur notast við frá upphafi.

Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna hf.

Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna hf.

Local Suðurnes greindi frá því í gær að dæmi væru um að fólk hafi fengið reikninga sem hljóma upp á upphæðir sem svipa til ársnotkunar fyrir eins mánaðar tímabil.

Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna sagði í svari við fyrirspurn Local Suðurnes að með mæli væri reikningurinn hærri yfir vetrartímann en myndi lækka með sumrinu.

“Með mæli er reikningurinn hærri yfir veturinn en svo lægri á sumrin þannig að þeir sem eru að fá mæli núna byrja á að fá hærri reikninga en síðan eiga þeir að lækka þegar vorar. Hjá þeim sem mælaskipti fara fram að vori þá lækkar reikningurinn hinsvegar að öðru jöfnu í byrjun en hækkar með haustinu.” Segir í svari Júlíusar

Lítið svigrúm til að koma til móts við viðskiptavini

Júlíus segir að ekki eigi að þurfa að fara í neinar breytingar hjá notendum vegna mælanna, eina sem getur komið upp ef eitthvað var bilað fyrir og þarfnast viðgerðar en það er ekki vegna mælanna. Aðspurður sagði forstjórinn fyrirtækið ekki hafa mikið svigrúm til að koma til móts við viðskiptavini sína vegna vandamála sem koma upp eftir uppsetningu mælanna:

“HS Veitur kaupa vatnið af HS Orku og hefur milli 55 og 60% söluverðsins farið til kaupa á vatni og svigrúmið því ekkert of mikið. HS Veitur verða að greiða fyrir allt það vatn sem fer gegnum kerfin og ljóst að ábyrgðin á að kerfin séu í lagi liggur hjá húseigendum.”

“Ein af ástæðunum sem nefndar hafa verið fyrir breytingunni úr hemlum í mæla er orkusóunin sem fylgt hefur hemlakerfinu hjá allt of mörgum notendum. Það eru fyrst og fremst þeir sem geta lent í því að fá háa reikninga breyti þeir ekki notkun sinni og erfitt fyrir HS Veitur að segja að sóunin megi standa tímabundið yfir áfram. Þess vegna höfum við komið þessum bæklingi á framfæri og ítrekað í allri umræðu þau ráð til húseigenda að þeir láti pípulagningamenn yfirfara kerfin til að koma í veg fyrir óhóflega notkun.” Segir í svari forstjóra HS Veitna.

Mikilvægt að lesa þau gögn sem fyrirtækið leggur fram

Að sögn Júlíusar hafa bæklingar verið skildir eftir í þeim húsum sem mælar hafa verið settir upp, auk þess sem frekari upplýsingar sé að finna á heimasíðu fyrirtækisins.

“Við höfum skilið eftir í húsum og einnig sent bækling sem við köllum „Hitamenning“. Í honum er m.a. á bls. 7 áætlun um hvernig notkun skiptist milli mánaða og þar kemur skýrt fram að t.d. er gert ráð fyrir að 12% ársnotkunar sé í janúar en 5% í júní / júlí. Öll þessi gögn er einnig að finna á heimasíðu HS Veitna. Ef fólk les ekki þau gögn sem við leggjum fram til kynningar þá erum við hálf ráðalaus og getum ekki borið ábyrgð á afleiðingunum.”