Metaðsókn á Þorrablót Grindvíkinga
Aldrei hafa fleiri miðar verið seldir á stórviðburð ársins, Þorrablót Grindvíkinga, en nú í ár. Þetta verður í fyrsta sinn sem 600 manns koma saman í borðhald í íþróttahúsinu en blótið fer fram laugardaginn 26. janúar næstkomandi. Undanfarin ár hefur viðburðurinn stöðugt vaxið.
Forsala miða var á Fjörugum föstudegi sem haldinn var í lok nóvember, þar gafst fólki kostur á að tryggja sér miða og velja sér borð. Að forsölu lokinni tók við biðlisti þar sem nefndin þurfti að bæta við borðum í salinn, til mikillar gleði tókst nefndinni að bæta við borðum og hreinsa upp listann.
“Um þessar mundir er þorrablótsnefndin á fullu við að skipuleggja viðburðinn en að mörgu þarf að hyggja”, sagði Margrét Magnúsdóttir eða Magga eins og við þekkjum hana, í samtali við vefsíðuna Grindavíkur. Magga hefur lengi setið í nefndinni og er því öllum hnútum kunnug þegar kemur að skipulagningu svona stórviðburðar. “Skipulagið gengur vel en nefndin sem er hlaðin reynslu úr öllum áttum safnar saman hugmyndum svo úr verði stórskemmtilegt blót, en ætlunin er alltaf gera betur, toppa okkur ár frá ári. Aðsókn í ár er frábær, án efa verður þetta frábært blót sem enginn vill missa af, söngur, dans og gleði. “