Nýjast á Local Suðurnes

Fyrrum leikmaður Víðis þjálfar lið í eigu Jamie Vardy

Fyrrverandi leikmaður Njarðvíkur og Víðis í Garði, Guilherme Ramos, hefur verið ráðinn í stöðu þjálfara hjá bandaríska knattspyrnuliðinu Rochester NY FC, sem leikur í nýrri MLS Next Pro deild þar í landi.

Saga Ramos er um margt áhugaverð, en hann kom fyrst hingað til lands árið 2010 og lék fjóra leiki á miðjunni hjá Njarðvíkingum í fyrstu deildinni, án þess þó að koma knettinum í netið. Hann hélt svo aftur til heimalandsins Portúgals og lék þar með liðum í neðri deildum áður en hann snéri aftur til Íslands árið 2014 og samdi við Víði. Hann lék tvö tímabil í Garði, til ársins 2016 alls 33 leiki og skoraði í þeim 10 mörk.

Frá Garði lá leiðin aftur á heimaslóðir hvar kappinn lagði fyrir sig þjálfun í neðri deildum í Portúgal og Kýpur sem aðstoðarmaður Bruno Baltazar næstu árin. Árið 2019 urðu svo kaflaskipti á þjalfaraferlinum þegar Ramos var ráðinn aðstoðarmaður áðurnefnds Baltazar, sem þá var í þjálfarateymi enska knattspyrnuliðsins Nottingham forest, en þeim félögum var sagt upp störfum þar síðla árs 2020.

Í desember síðastliðnum var Baltazar ráðinn sem knattspyrnustjóri Rochester NY og fylgir Ramos honum þangað sem þjálfari, en liðið leikur sem áður segir í nýstofnaðri MLS Next Pro deild, sem er hugsuð sem vettvangur fyrir unga leikmenn til að koma sér á framfæri í Bandaríkjununum. Liðið er að hluta til í eigu enska knattspyrnumannsins Jamie Vardy sem leikur með Leicester city.

Uppfært: Í upprunalegri útgáfu greinarinnar var sagt að Ramos starfaði sem yfirþjálfari, hið rétta er að hann starfar í þjálfarateymi Bruno Baltazar hjá Rochester NY.