Nýjast á Local Suðurnes

Hafa varið rúmlega 200 milljónum króna í sérfræðiráðgjöf

Reykjanesbær hefur varið rúmlega 200 milljónum króna í aðkeypta vinnu sérfræðinga og ráðgjöf í tengslum við endurskipulagningu á fjármálum bæjarins síðastliðin þrjú ár.

Þetta kemur fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins um fjármál Reykjanesbæjar, en þar segir einnig að í upphafi viðræðna Reykjanesbæjar við lánveitendur hafi sveitarfélagið farið fram á að milljarðar yrðu afskrifaðir af skuldum sveitarfélagsins. Það gekk ekki eftir, en samkomulag við lánveitendur fellst að mestu í endurfjármögnun lána, lækkun vaxta auk samkomulags um að hægt væri að afhenda ákveðnar eignir upp í skuldir.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, segist vonast eftir því að jöfnunarsjóður endurgreiði kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Fordæmi séu fyrir slíkum greiðslum, meðal annars hafi slíkt verið gert þegar Álftanes gekk í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.