Búast við gosi á hverri stundu
Jarðvísindamenn búast við gosi á hverri stundu á Reykjanesskaga en aðdragandinn gæti verið styttri en hálftími og forboðar gossins yrðu aukin skjálftavirkni og stökk í gosóróa á svæðinu.
Þetta kemur fram í frétt mbl.is, en þar segir að hægst hafi örlítið á landrisi við Sundhnúkagígaröðina og daglegum skjálftum þar fjölgi enn.
„Þetta eru svona á milli sextán og átján milljón rúmmetrar [af kviku],“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is, spurð út í áætlað kvikumagn undir Svartsengi.
Um 60 skjálftar hafa mælst í kvikuganginum síðasta sólarhring, svipað og um sólarhringinn þar á undan. Enginn áberandi gosórói mælist á svæðinu.