Nýjast á Local Suðurnes

Fá ekki lengur aðstöðu í Bardagahöll – Gert að fjarlægja búnað innan fjögurra vikna

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Það er samdóma álit íþrótta- og tómstundaráðs að fyrrum Glímudeild UMFN/íþróttafélagið Sleipnir hafi ekki lengur aðstöðu í Bardagahöll Reykjanesbæjar að Smiðjuvöllum. Miklar deilur hafa verið undanfarin misseri á milli Glímudeildarinnar, aðalstjórnar UMFN og Reykjanesbæjar.

Í ljósi þess að ekki er um formlegt íþróttafélag að ræða, hvorki undir starfsemi Íþróttabandalags Reykjanesbæjar né Ungmennafélagsins Njarðvíkur, ber íþrótta- og tómstundaráði ekki nein lagaleg skylda að hýsa áhugamannafélag, segir í fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs vegna málsins.

Reykjanesbær hefur auk þess fengið lögfræðiálit frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þarsem eftirfarandi kemur meðal annars fram:

„Hvað önnur félög varðar, s.s. áhugamannafélög, þá eru engin lagaákvæði sem kveða á um skyldu sveitarfélaga til að útvega þeim húsnæði. Sveitarfélögum er það hins vegar heimilt svo fremi sem það skerði ekki getu sveitarfélagsins til að sinna Iögskyldum verkefnum.”

Iðkendum í bardagahöllinni hefur fjölgað umtalsvert, ekki síst eftir að börn og ungmenni frá Grindavík, sem nú eru búsett í Reykjanesbæ, hófu æfingar með íþróttafélagi sem hefur aðstöðu í húsinu, segir í fundargerðinni.

Þá segir að ítrekaðar tilraunir íþrótta- og tómstundaráðs til að koma á starfsfriði hafa ekki tekist og þ.a.l. sér íþrótta- og tómstundaráð enga aðra kosti í stöðunni en að upplýsa að fv. Glímudeild UMFN/íþróttafélagið Sleipnir hafi ekki lengur aðstöðu í Bardagahöll Reykjanesbæjar. Verði ákvörðun þessi staðfest af bæjarráði Reykjanesbæjar er óskað eftir að fv. Glímudeild UMFN/íþróttafélagið Sleipnir fjarlægi búnað sinn úr bardagahöllinni innan fjögurra vikna frá fundi bæjarráðs.