Njarðvíkingar fyrstir til að glíma við landsliðsfyrirliðann – Frítt á leikinn!
Njarðvíkingar verða fyrsta liðið til að glíma við landsliðsfyrirliðann, Aron Einar Gunnarsson, sem nýverið gekk til liðs Þór á Akureyri. Njarðvíkingar ferðast á Akureyri í dag og leika gegn Þór á VÍS-vellinum klukkan 16.00. Frítt er á völlinn.
Baráttan um að komast í umspil um sæti í Bestu deildinni næsta sumar er í fullum gangi en fyrir leikinn eru Njarðvíkingar í fimmta sætinu, því síðasta sem gefur sæti í umspili.
Líklegt verður að teljast að Aron Einar komi við sögu í leiknum í dag, en þessi 35 ára gamli leikmaður er einn leikreyndasti knattspyrnumaður þjóðarinnar. Hann hefur leikið sem atvinnumaður erlendis í 18 ár og verið landsliðsfyrirliði í rúman áratug. Aron Einar er fjórði landsleikjahæsti íslenski knattspyrnukarlinn með 103 landsleiki.