Nýjast á Local Suðurnes

Jólahús Sandgerðis 2016 – “Það vekur upp barnslega gleði að labba framhjá Heiðarbraut 4”

Heiðarbraut 4 var valið jólahús Sandgerðis 2016, en Umhverfisráð Sandgerðisbæjar stendur fyrir vali á jólahúsi Sandgerðis ár hvert. Ráðið  hreifst af vel skreyttu húsi með hlýlegt yfirbragð sem vekur upp barnslega gleði eins og fram kemur í vel rökstuddri tilnefningu. Nefndin telur íbúa þessa húss vel að þessu vali komin.

Í innsendri tilnefningu um Heiðarbraut 4 segir m.a.: „Það vekur upp barnslega gleði, þegar maður labbar framhjá Heiðarbraut 4. Ég veit líka fyrir víst að ef þið fengjuð að kíkja inn til þeirra hjóna Þóru og Inga, myndi taka á móti ykkur stærsta jólakertasafn sem fyrirfinnst í Sandgerði og þó víðar væri leitað. Húsið er skreytt uppí loft að innan líka.“

Hjónin  Þóra Björg Guðjónsdóttir og Ingi Rúnar Sigurðsson veittu viðtöku viðurkenningu við hátíðlega athöfn í gær. Þau fengu afhentan fallegan og jólalegan blómvönd ásamt gjafabréfi frá HS orku, 25 þúsund króna inneign fyrir rafmagnskostnað.

HS orku er þakkað veglegt framlag til jólahússins í ár og umhverfisráði fyrir sitt framlag. Ráðið skipa Gísli Þórhallsson, Rakel Rós Ævarsdóttir, Ása Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir, Bjarki Dagsson og Þorbjörn Björnsson.

jolahus sandg16