Reykjanesbær þarf að greiða listaverk sem var sprengt í loft upp
Reykjanesbær þarf að greiða Víkingahringnum ehf., 3.211.199 krónur ásamt dráttarvöxtum auk rúmlega 1.300.000 króna málskostnaðar vegna skemmda sem urðu á listaverki í eigu fyrirtækisins um áramótin 2011/2012. Verkið var sprengt í loft upp með heimagerðri sprengju eða flugeldi.
Fjárhæðin sem Reykjanesbær þarf að greiða er byggð á mati dómkvadds matsmanns á kostnaði við lagfæringar á verkinu. Miðar krafan við kostnað við endurbyggingu á þeirri einingu verksins sem fyrir tjóni varð. Ljóst er að skemmdir á listaverkinu hafa ekki hlotist af venjulegri notkun þess og eru ekki vegna veðrunar eða rýrnunar.
Dóm Héraðsdóms má finna í heild sinni á vef embættisins.