Nýjast á Local Suðurnes

Vogabúar fái vatn úr Innri – Njarðvík

Gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins Voga gerir ráð fyrir að nýtt vatnsból verði tekið í notkun á síðari hluta skipulagstímabilsins.

Núverandi vatnsból er í Vogavík, nánar tiltekið innan athafnasvæðis Stofnfisks hf. Vatnsbólið er í eigu og rekið af HS Veitum hf., en sjálft dreifikerfið er í eigu vatnsveitu sveitarfélagsins, segir í pistli bæjarstjóra. Á aðalskipulaginu er gert ráð fyrir nýju vatnsbóli sunnan Reykjanesbrautar.

HS Veitur hafa lagt fram tillögu þess efnis að í stað þess að virkja nýtt vatnsból verði þess í stað lögð ný lögn frá Innri-Njarðvík, yfir Vogastapa og að þeim stað þar sem dreifikerfið tengist við núverandi vatnsból.

Bæjarráð tók erindið til umfjöllunar á fundi sínum um miðjan desember s.l., og samþykkti fyrir sitt leyti að þessi leið verði farin að uppfylltum skilyrðum. Í erindinu kom fram að stofnkostnaður við lögnina væri umtalsvert lægri en kostnaður við að virkja nýtt vatnsból. Málið er nú í vinnslu, og m.a. verið að afla nauðsynlegra leyfa m.a. hjá landeigendum.