Nýjast á Local Suðurnes

Rekstrarniðurstaða verður neikvæð og beiðnum um fjárhagsaðstoð mun fjölga

Stjórnendur Reykjanesbæjar gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins verði neikvæð  eftir fyrstu fimm mánuði ársins vegna Covid 19 faraldursins. Þá er gert ráð fyrir að aukning verði í beiðnum um fjárhagslegan stuðning.

Félagsþjónustur og kirkjur á Suðurnesjum munu funda á næstunni og bera saman bækur sínar, en áhyggjur eru af því ástandi sem kann að skapast að óbreyttu þegar uppsagnarfresti fólks lýkur og fleiri fara á atvinnuleysisbætur og gera má ráð fyrir aukinni þörf fyrir fjárhagslegan stuðning.

Í undirbúningi er móttaka Velferðarvaktarinnar þann 19. júní 2020 þar sem farið verður yfir afleiðingar Covid-19 faraldursins á velferð og félagslega stöðu íbúa á svæðinu, fátækt og hvaða aðstoð er í boði.

Þetta kemur fram í fundargerð neyðarstjórnar Reykjanesbæjar, en þar kemur einnig fram að fyrstu fjóra mánuði ársins hafi útsvarstekjur og framlag frá jöfnunarsjóði verið 500 milljónum króna undir áætlun. Um miðjan júní verður ljóst hvernig maí kemur til með að líta út, en að óbreyttu stefnir í að rekstrarniðurstaða eftir fyrstu 5 mánuði ársins verði neikvæð.