Nýjast á Local Suðurnes

Bólusetning skilyrði fyrir leikskólaplássi

Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar könnunar Zenter rannsókna eru rúmlega níu af hverjum tíu Íslendingum á þeirri skoðun að gera eigi almennar bólusetningar að skilyrði fyrir innritun barna í leikskóla. Um miðjan febrúar kom mislingasmitaður maður til landsins. Hann flaug áfram til Egilsstaða og rekja má fimm mislingasmit til þeirrar flugferðar þar sem tveir þeirra smituðu voru börn yngri en 18 mánaða. Þar með fengum við smá sýnishorn af mislingafaraldrinum sem geisað hefur í Evrópu undanfarin ár.

Sóttvarnalæknir hefur sagt að þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi sé óviðunandi og minnki hún enn frekar megi búast við dreifingu sjúkdóma sem ekki hafa sést hér á landi um árabil. Mikill fjöldi íbúa Reykjanesbæjar starfa í flugtengdum störfum, ýmist í flugáhöfnum eða á flugvellinum, þar sem þeir komast í snertingu við fjölda fólks víðsvegar að og eru þannig sérstaklega útsett fyrir smiti.

Auk þess er hvergi á landinu hærra hlutfall íbúa af erlendum uppruna en í Reykjanesbæ. Megin þorri þeirra er á barneignaaldri og dæmi eru um leikskóla í Reykjanesbæ þar sem helmingur barna eru af erlendum uppruna. Reykjanesbær hefur staðið sig frábærlega í að takast á við þær áskoranir sem þessari þróun hefur fylgt; og án þess að ætla ala á fordómum eða móðursýki, þá veltir maður fyrir sér hvort þessir foreldrar séu nógu vel upplýstir um almennar bólusetningar. Það er því full ástæða til að huga sérstaklega að fræðslu fyrir foreldra barna á leikskólaaldri og það er nauðsynlegt að hún sé öllum aðgengileg.

Að skilyrða innritun barna í leikskóla Reykjanesbæjar við að þau hafi fengið almenna bólusetningu gæti virkað sem öflug forvörn og gott tækifæri til að ná til allra foreldra til að leiðbeina þeim. Samkvæmt leiðbeiningum Landlæknis er sárasjaldan ástæða til að bólusetja ekki barn. Skilyrði sem þetta yrði með sanngjörnum undantekningum og yrði ekki beitt af harðræði. Foreldrum yrði að sjálfsögðu gefinn aðlögunartími og veitt aðstoð við að ljúka bólusetningum barna sinna.

Slíku skilyrði væri ekki ætlað að jaðarsetja óbólusett börn, heldur til að vernda hagsmuni heildarinnar. Vanræksla eða sérviska foreldra óbólusettra barna mega ekki hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir börn annarra. Með þessari stuttu grein langar mig að kalla eftir umræðu um þetta mál og meta hvort tillaga um svona skilyrði verði lögð fram í stjórnkerfi Reykjanesbæjar.

Andri Örn Víðisson er fulltrúi D-listans í fræðsluráði Reykjanesbæjar og varabæjarfulltrúi